Að búa til lykilorð
Nokkur lykilatriði til sem auka öryggi þinna upplýsinga hjá Alfreð
Lykilorð er lykill að aðgangi þínum hjá Alfreð. Og alveg eins og með húslyklana þína eða lykilinn að bílnum þá er mikilvægt að skilja lykilorð ekki eftir á glámbekk. Hér höfum við tekið saman nokkra punkta sem hjálpa þér og okkur að tryggja öryggi upplýsinga um þig og fyrirtæki þitt á Alfreð.
Lágmarkskröfur
Samkvæmt öryggisstefnu Alfreðs þarf lykilorð að vera:
Að minnsta kosti 8 stafir
Blanda af bókstöfum og tölustöfum
Minnst einn HÁSTAFUR
Minnst einn lágstafur
Minnst 1 tölustafur
Þetta eru lágmarkskröfur okkar en þú mátt gjarnan hafa lykilorðið lengra. Því lengra og flóknara sem lykilorðið er, því betri er læsingin á aðgangi þínum og erfiðara fyrir óviðkomandi að gramsa í þínum upplýsingum.
Alveg einstakt lykilorð
Passaðu að lykilorðið sé einstakt, þ.e. aðeins í notkun fyrir aðgang þinn að Alfreð. Ekki nota lykilorð sem er í notkun á öðrum vefsíðum. Við hjá Alfreð getum ekki ábyrgst öryggi annarra vefsíðna eða varið þig gegn gangaleka í öðrum kerfum.
Fleiri stafir = meira öryggi
Lengdin er oftast besti mælikvarðinn á styrk lykilorðs en fast á hæla stafafjöldans kemur flækjustigið. Langt lykilorð verður enn sterkara með því að nota á víxl hástafi, lágstafi og tölustafi þar sem síst er við þeim að búast.
Fáránlega eftirminnilegt
Til að muna löng lykilorð má t.d. búa til stutta en skrýtna setningu, jafnvel með tilbúnum orðum sem ólíklegt er að nokkrum komi til hugar að nota. Þú ættir samt að forðast að nota þekkta frasa, nöfn, dagsetningar eða orð sem tengjast þér persónulega.
Gleymdu afmælisdegi barnanna
Slepptu því að nota afmælisdaga eða nöfn barna þinna, ættingja eða maka í lykilorð. Ekki heldur nafnið á hundinum þínum eða annað sem þér er kært og mögulega væri hægt að lesa úr notkun þinni á samfélagsmiðlum. Ekki tengja lykilorðið við þína persónu.
Algengustu lykilorð heims
Algengustu lykilorð í heimi eru frekar einföld, t.d. þessi þrjú sem oftast eru á toppnum í bland við önnur álíka gagnslaus: 123456, 12345678 og password. Svona lykilorð jafnast á við það að geyma lykilinn í skránni og bera vott um kæruleysi og mjög takmarkað hugmyndaflug.
Lykilorðabanki
Lykilorðabanki (e. password manager) hjálpar þér að geyma og búa til ný lykilorð. Sífellt fleiri kjósa að nýta sér þannig lausnir. Þá þarf aðeins að leggja eitt lykilorð á minnið en með því má opna bankann og sækja það lykilorð sem á þarf að halda hverju sinni.
Alfreð vill ekki gera upp á milli þjónustuaðila eða lykilorðabanka, hér nokkur dæmi um vefsíður af því tagi þótt listinn sé langt frá því að vera tæmandi:
1Password: https://1password.com/
Bitwarden: https://bitwarden.com/
Keeper: https://keepersecurity.com/
NordPass: https://nordpass.com/
Uppfært þann: 11/04/2025
Takk fyrir!